Snjallbærinn Hafnarfjörður

Við erum stolt að segja frá því að við hjá Lýsir höfum hafið samstarf við Hafnarfjarðarbæ sem felst í uppsetningu og þjónustu á ýmsum lausnum sem stuðla að þeirra vegferð að gera Hafnarfjörð að sannkölluðum snjallbæ. Fjallað var um málið í morgunblaðinu 3. nóvember og í fréttatilkynningu á heimasíðu Hafnarfjarðarbæjar.

Nú þegar er búið að setja upp veðurstöð, færanlega innanhússloftgæðaskynjara og sorpskynjara til eftirlits meðal annars í tunnum í miðbæ Hafnarfjarðar og við Hvaleyrarvatn.

Þessi tæki eiga öll það sameiginlegt að nýta sér LoRaWAN kerfið okkar hjá Lýsir. LoRaWAN er fjarskiptakerfi sem notar lítið afl og er með langa drægni, sem þýðir það að búnaður sem tengist kerfinu endist yfirleitt lengur með tilliti til rafhlöðuskipta og er því mjög hagkvæmur í rekstri. Nú þegar er kerfið með dreifingu um allt Höfuðborgarsvæðið.

Veðurstöð

Veðurstöðin sem sett hefur verið upp er frá ítalska fyrirtækinu MCF88 og er í raun í grunninn Davis veðurstöð en slíkar stöðvar eru nú þegar í notkun á þónokkrum stöðum á landinu. Það sem gerir þessa stöð frábrugðna öðrum Davis stöðvum er að bætt hefur verið við búnaði sem umbreytir veðurupplýsingunum og sendir þær áfram á LoRaWAN netþjón okkar, en að auki hefur verið bætt við búnaði sem mælir gildi svifryks, PM1, PM2.5 og PM10, í loftinu. Veðurstöðin skilar eftirfarandi upplýsingum:

 • Hitastig
 • Rakastig
 • Vindhraði
 • Meðal vindhraði síðustu 10 mínúturnar
 • Vindátt
 • Úrkoma
 • Meðalúrkoma
 • Loftþrýstingur
 • Loftþrýstingsbreytingar
 • Sólargeislun
 • Uppgufun
 • Veðurspá
 • Svifryksgildi; PM1, PM2.5 og PM10

Veðurstöðvar sem þessar geta hjálpað íbúum bæjarins með hversdagslegar ákvarðanir. Hvernig ætti ég að klæða börnin fyrir skóladaginn?, ætli það sé óhætt að setja ungbarnið út að sofa í vagni með tilliti til hitastigs og svifryksgilda?, er óhætt fyrir einstakling sem er viðkvæmur í öndunarfærum að vera mikið úti við? og svo framvegis.

Innanhúss loftgæðamælar

Loftgæði innanhúss skipta okkur öll máli. Léleg gæði lofts í innanhússrýmum hafa áhrif á heilsu, vellíðan og afköst þeirra sem eru í rýminu til lengri tíma. Með því að fylgjast með vissum gildum í loftinu má stilla af loftræstingu og tryggja þannig góð loftgæði. Þau gildi sem þeir mælar sem Hafnarfjarðarbær nýtist við eru eftirfarandi:

 • Hitastig
 • Rakastig
 • Koltvísýringur
 • VOC (rokgjörn lífræn efnasambönd) mæld með einingunni IAQ
 • Loftþrýstingur
 • Birtustig

Með því að fylgjast með og nýta sér þessi gögn er hægt að stuðla að bættum loftgæðum í hinum ýmsu rýmum og með því má bæta heilsu, vellíðan og árangur starfsfólks og íbúa bæjarins.

Sorphirðueftirlit

Með því að nýta skynjara í sorptunnur aukum við sjálfbærni, drögum úr umhverfisáhrifum og aukum hagræðingu. Tunnur eru einungis tæmdar þegar þörf er á, með gögnum um fyllingu tunnanna má einnig fjölga eða fækka tunnum eftir því sem við á.

Þá býður framleiðandi skynjaranna einnig upp á app sem hver sem er getur sótt, í því má sjá staðsetningar, tegundir og stöðu á þeim tunnum sem hafa uppsetta skynjara. Þar getur almenningur einnig sent inn skilaboð er varða hverja tunnu til dæmis ef tunnan hefur orðið fyrir skemmdum eða eitthvað slíkt. (Forritið má nálgast í: AppStore-Iphone: Waste monitoring app Sensoneo, PlayStore-Android: Smart waste monitoring by Sensoneo)

Snjöll bæjarfélög eru framtíðin

Með auknum tæknimöguleikum sem fjórða iðnbyltingin hefur í för með sér, gefur það sveitarfélögum, bæjum, borgum, fyrirtækjum og einstaklingum tækifæri á að hagræða ýmsu í rekstri og daglegu lífi. Með vel völdum snjöllum lausnum má stuðla að bætingum á ýmsum sviðum, spara töluverðar fjárhæðir og einfalda verkferla.  

Lýsir er stoltur af samstarfinu með Hafnarfjarðarbæ, þar sem bærinn tekur fyrstu skrefin í áttina að verða

 „SnjallbærinnHafnarfjörður”

Fleiri greinar

Bætum hreinlæti og drögum úr kostnaði

Rétt hreinlætishegðun er eitt það mikilvægasta þegar kemur að öryggi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Skortur á áreiðanlegum gögnum er stór hindrun fyrir sjúkrastofnanir þegar kemur að því að bæta hreinlætishegðun og hefta dreifingu sýkinga.
LESA NÁNAR

Everynet og Lýsir koma á fót LoRaWAN kerfi á Íslandi

Lýsir og Everynet hafa undirritað samstarfssamning um að koma á laggirnar LoRaWAN kerfi á Íslandi. Nú þegar nær dreifing kerfisins til alls Höfuðborgarsvæðisins. Markmið þessa nýja samstarfs er að nýta nettækni sem notar mjög lítið afl en hefur mikla drægni sem heimilar áður óséðan fjölda skynjara, nema og samskonar tækjabúnaðar til gagnaöflunar sem aðstoðar við ákvarðanatöku á fjölmörgum sviðum samfélagsins.
LESA NÁNAR

Hvað er LoRaWAN og hvernig er það að breyta heiminum?

Frá því að hugtakið IoT (Internet of Things) eða hlutanetið var skapað hefur umræðan verið sú að „snjallvæðingin“ væri handan við hornið og að innan tíðar yrðu flestir þættir í okkar lífi snjallir. Fram að þessu höfum við verið háð takmörkunum þeirrar tækni sem hefur verið í boði.
LESA NÁNAR