Snjallstýrum götuljósum - bætum öryggi og aukum sparnað

Á höfuðborgarsvæðinu eru alls um 50.000 götuljósalampar og á landinu öllu eru þeir tæplega 90.000. Í borgum, bæjum og sveitarfélögum er algengt að stöðu lampa á misstóru svæði sé stýrt af einum ljósnema sem tekur mið af dagsbirtu. Þegar um er að ræða stór svæði er auðvelt er að átta sig á því að birtustigið getur verið mismunandi, þannig að staðan á ljósnemanum á ekki við alls staðar innan svæðisins. Þess vegna getur snjallstýring götuljósa aukið þjónustu, hagræðingu og öryggi götulýsingar töluvert.  

Götuljós nota töluvert mikla orku og er núverandi götulýsing ekki eins hagkvæm og hún gæti mögulega verið. Sem dæmi má nefna að þá er aðeins hægt að slökkva og kveikja á flestum götuljósum eftir fyrir fram ákveðinni áætlun. Með nýrri tækni eru komnar leiðir til að stýra götulýsingu eftir þörfum og stýra ljósmagni eftir aðstæðum sem skilar sér í auknum sparnaði og hagræðingu.  

Með því að nota þráðlausa LoRaWAN tækni er hægt að ná betri stjórn á götulýsingu og færa þannig götulýsinguna inn í snjallsamfélagið. Með nýrri tækni má stilla sjálfkrafa þann tíma sem ljósin eru virk, stýra ljósmagni hverju sinni og lágmarka orkukostnað án þess að fórna öryggi almennings. Snjallar lýsingarlausnir draga úr viðhaldskostnaði og með tengingu við hlutanetið (e. Internet of Things) má tengja lýsingu við aðrar snjallar lausnir til að auka skilvirkni enn betur. LoRaWAN staðallinn auðveldar innleiðingu snjalllýsingar inn í önnur kerfi borga og bæjarfélaga þar sem möguleiki er á nýtingu viðbótarbúnaðar til þess að fylgjast með öðrum þáttum eins og umferð, loftgæðum og bílastæðum til að nefna nokkra þætti.

Hvernig virkar snjallstýrð götulýsing?

Fyrst ber að nefna staðallinn sem flest norræn sveitarfélög hafa ákveðið að fara eftir sem nefnist Zhaga (Book 18) og þýðir það að sá ljósabúnaður sem settur er upp skal uppfylla þennan staðal. Með staðlinum er auðveldara að bæta við skynjurum og stýribúnaði í þeim tilgangi að gera ljósastaurana snjalla. Sé um lampa að ræða sem uppfyllir Zhaga staðalinn er á honum tengi gagngert til að bæta við snjallri stýringu. Einnig er mögulegt að snjallvæða eldri LED lampa sem hafa ekki þessi tengi, en þá er búnaði komið fyrir inn í staurnum sjálfum.

Hver og einn búnaður sem stýrir lampanum hefur samskipti við svokallaða LoRaWAN gátt. Gáttin sér um að koma skilaboðum og gögnum til og frá ljósastaurum um það hvort eigi að kveikja, slökkva eða dimma lampana. Gögnin fara næst frá gáttinni yfir til netþjóns sem kemur þeim áfram á veflægt forrit/mælaborð þar sem gögnin eru unnin. Með forritinu má fjarstýra allri virkni lampanna og hægt að láta það senda frá sér viðvaranir ef eitthvað telst vera óvenjulegt og getur t.d. sent frá sér beiðni um viðgerð ef skipta þarf um peru.

Þess má geta að Lýsir er með LoRaWAN dreifingu yfir allt höfuðborgarðsvæðið og annar snjallbúnaður getur tengst inn á kerfið og má því nýta kerfið til margskonar nota.

Við hjá Lýsir höfum verið að notast við inteliLIGHT ljósastýringarlausn frá Flashnet. Bílastæði við húsnæði Lýsir eru lýst upp með LED lömpum sem stýrt er með LoRaWAN ljósastýringarbúnaðinum. Allir lampar fylgja gangi sólar og kveikja þeir á sér þegar byrjar að dimma og eins slökkva þeir á sér þegar sól tekur að rísa. Yfir nóttina eru allir lampar dimmaðir til þess að spara orku. Innbyggður ljósnemi er í inteliLIGHT búnaðinum sem kveikir á lömpunum ef dimmir skyndilega t.d. vegna veðurs. Einnig er hægt að tengja hreyfiskynjara við kerfið sem greinir hreyfingu frá bílum og vegfarendum og kveikir á lömpunum ef þörf er á.

Það er mikilvægt að geta stýrt götulýsingu eftir þörfum og fengið upplýsingar um stöðu hennar hverju sinni. Það gefur tækifæri til að bregðast við ýmsum aðstæðum með fljótum og öruggum hætti. Snjöll götuljósastýring stuðlar þar af leiðandi að betra, öruggara og snjallara samfélagi.

Fleiri greinar

Bætum hreinlæti og drögum úr kostnaði

Rétt hreinlætishegðun er eitt það mikilvægasta þegar kemur að öryggi sjúklinga í heilbrigðiskerfinu. Skortur á áreiðanlegum gögnum er stór hindrun fyrir sjúkrastofnanir þegar kemur að því að bæta hreinlætishegðun og hefta dreifingu sýkinga.
LESA NÁNAR

Everynet og Lýsir koma á fót LoRaWAN kerfi á Íslandi

Lýsir og Everynet hafa undirritað samstarfssamning um að koma á laggirnar LoRaWAN kerfi á Íslandi. Nú þegar nær dreifing kerfisins til alls Höfuðborgarsvæðisins. Markmið þessa nýja samstarfs er að nýta nettækni sem notar mjög lítið afl en hefur mikla drægni sem heimilar áður óséðan fjölda skynjara, nema og samskonar tækjabúnaðar til gagnaöflunar sem aðstoðar við ákvarðanatöku á fjölmörgum sviðum samfélagsins.
LESA NÁNAR

Hvað er LoRaWAN og hvernig er það að breyta heiminum?

Frá því að hugtakið IoT (Internet of Things) eða hlutanetið var skapað hefur umræðan verið sú að „snjallvæðingin“ væri handan við hornið og að innan tíðar yrðu flestir þættir í okkar lífi snjallir. Fram að þessu höfum við verið háð takmörkunum þeirrar tækni sem hefur verið í boði.
LESA NÁNAR